Náttúrusýn á 21. öldinni: Fjölbreytni samfélags og náttúru

Náttúruminjasafn Íslands, ROCS rannsóknasetrið og BIODICE viðburður á Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni 2023

Kl. 12.00-14.50 föstudaginn 14. apríl. Auðarsalur – Veröld hús Vigdísar

Náttúruminjasafn Íslands, ROCS rannsóknasetrið og BIODICE boða til málþings sem miðar að því að miðla sýn og þekkingu á fjölbreytni náttúru og menningar til samfélagsins á upplýsandi hátt.
Lögð verður áhersla á þverfaglega nálgun á grunni hugmyndasögu, bókmennta, heimspeki, og náttúruvísinda með áherslu á sögu og samhengi þeirrar þekkingar sem mótar sýn okkar tíma. Fólk beinir sjónum sínum í æ ríkara mæli til náttúrunnar, ekki síst vegna þeirrar miklu umhverfisvár sem blasir við. Almenningur, stjórnvöld og fræðasamfélagið um allan heim hafa lagt sig fram um að skýra þessa stöðu. Á undanförnum árum hafa sprottið upp kenningar, rannsóknir, almenn sjónarmið og átaksverkefni sem leitast við að skýra stöðu mannsins í náttúrunni og hvernig henni sé best fyrirkomið til framtíðar. Efnistök fyrirlestranna beinast að því að greina og skýra þessa mikilvægu þróun með skapandi miðlun og lausnir í huga.

Titill málþingsins vísar til ráðstefnu með þessu heiti sem haldin var 1993 og bók sem kom út árið eftir og Þorvarður Árnason og Róbert Haraldsson ritstýrðu. Þetta var átak til að vekja umræðu á þeim tíma, sem Páll Skúlason átti frumkvæði að og hafði áhrif á náttúruheimspeki hans og margra annarra þar eftir.

Dagskrá:
12.00-12.05 Setning málþings – fundarstjóri
12.05-12.55. Viðar Hreinsson: Hvað er/var/verður [N]áttúra(n)?
12.55-13.15 Auður Aðalsteinsdóttir: Vistlist og fagurfræði á tímum nýrra ógna
13.15-13.35 Guðbjörg R. Jóhannesdóttir: Frá náttúrusýn til náttúruveru
13.35-13.55 Arndís Bergsdóttir: Samtvinnaðar sögur af sjávarbotni
13.55-14.15 Skúli Skúlason: Fjölbreytni náttúrunnar og verðmæti hennar
14.15- 14.50 Viðbrögð og pallborðsumræða
14.50 Málþingslok