Hvað er líffræðileg fjölbreytni?

Líffræðileg fjölbreytni (einnig kallað líffræðilegur fjölbreytileiki, lífbreytileiki eða líffjölbreytni) merkir fjölbreytni meðal lífvera í margbreytilegu umhverfi, þar með töldum vistkerfum á landi, í sjó og vötnum, og þau vistfræðilegu kerfi sem þær eru hluti af. Þetta nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og meðal vistkerfa. Í íslenskum lagatexta, m.a. lögum um náttúruvernd1 er líffræðileg fjölbreytni hin formlega þýðing á hugtakinu biological diversity (stutt: biodiversity).

Líffræðileg fjölbreytni er forsenda heilbrigðra vistkerfa sem eru undirstaða lífkerfa jarðar, og því er hnignun hennar á heimsvísu eitt af stærstu vandamálum samtímans. Líffræðileg fjölbreytni er nátengd brýnum viðfangsefnum svo sem loftslagsmálum, sjálfbærri þróun, auðlindanýtingu, efnahag, mengun, lýðheilsu og málefnum náttúruverndar.

Ef mannkynið ætlar sér að búa áfram á jörðinni þarf það að semja frið við náttúruna og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Við erum jú hluti af náttúrunni. Mikilvægt er  að allir þekki hugtakið líffræðileg fjölbreytni, skilji hvað felst í því og hvað er í húfi. Markmið laga um náttúruvernd eru skýr og kveða á um að vernda skuli til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt og einnig stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum umhverfisbreytingum. 

Búsvæðaeyðing, loftslagsbreytingar, ágengar framandi tegundir, ofnýting og mengun eru fimm helstu ógnir við líffræðilega fjölbreytni í heiminum. Ísland er þar engin undantekning þótt hérlendis sé enn að finna ýmis lítt snortin vistkerfi.

Orðræðan um fjölbreytni lífs á Íslandi hefur hins vegar verið dapurleg á köflum og er á þá leið að flóra, fána og funga séu ómerkileg vegna tegundafábreytni sinnar. En verðmæti líffræðilegrar fjölbreytni hérlendis felast í öðrum þáttum. Hér eru vissulega ekki margar tegundir á alþjóða mælikvarða en það skýrist af legu landsins sem úthafseyju lengst norður í höfum og þeim stutta tíma sem liðinn er frá síðasta jökulskeiði þegar landið var hulið jöklum. Í þessu felst þó mikilvæg sérstaða okkar. Þessi umgjörð hefur mótað einstakar aðstæður fyrir lífverur að nema land og þróast. Hérlendis er jarðfræðileg fjölbreytni, eða jarðbreytileiki, mikill, og það hefur skilað sér í því að þær fáu tegundir sem hafa numið hér land hafa haft einstakar aðstæður til að aðlagast ólíkum búsvæðum án mikillar samkeppni og í einangrun frá meginlöndunum. Þetta lýsir sér oft í mikilli fjölbreytni innan tegunda. Því má segja að talning tegunda sé eitt og sér ekki nothæfur mælikvarði á verðmæti líffræðilegar fjölbreytni á Íslandi. Okkar verkefni – og forgangsmál ‒ er að meta og varðveita þá líffræðilegu fjölbreytni sem hefur mótast hér fyrir tilstilli einstakra aðstæðna og varðveita þær aðstæður sem liggja til grundvallar.