Um Biodice

Í október 2020 tók hópur líffræðinga á Íslandi þátt í vinnufundi með fulltrúum Evrópsku sameindalíffræðistofnunarinnar (European Molecular Biology Laboratory, EMBL) til að skoða samstarfsfleti. Niðurstaða fundarins var að á Íslandi væru aðstæður um margt áhugaverðar varðandi líffræðilega fjölbreytni; og að þessar aðstæður gerðu það að verkum að Ísland gæti verið fyrirmynd (case-study) í þeirri vinnu sem fyrir höndum er á heimsvísu varðandi skilning á myndun, viðhaldi og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.

Þessi fundur varð kveikjan að því að myndaður var samstarfsvettvangur einstaklinga, stofnana og fyrirtækja sem hefur að markmiði að efla þekkingu og skilning á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Þessi samstarfsvettvangur er nefndur BIODICE (stytting á Biological Diversity of Iceland). Markmiðin kallast á við mikilvægi þess að mæta áskorunum vegna hruns líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum ásamt hnignunar vistkerfa. Á þessari síðu munum við skýra nánar eðli þessa sameiginlega verkefnis, og bjóða öllum þeim sem áhuga hafa á málefninu að skrá sig til þátttöku í samstarfsvettvangnum.