Semjum frið við við náttúruna er yfirskrift greinar eftir Skúla Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands og Hilmar J. Malmquist, forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands sem birtist í Fréttablaðinu 25. mars 2021.
Hér fyrir neðan má lesa greinina.
Í febrúar sendi Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UsSþ/ UNAP) frá sér tímamótaskýrslu sem ber heitið „Semjum frið við náttúruna“ (e. Making Peace with Nature). Þar er dregin upp afar dökk mynd af stöðu mála á jörðinni varðandi mengun, loftslagsbreytingar og hrun líffræðilegrar fjölbreytni, sem ekki sé hægt að lýsa öðruvísi en að mannkynið sé í stríði við náttúruna. Skýrslan bendir einnig skilmerkilega á hvaða leiðir við höfum til að víkja af þessum vegi eyðileggingar með markmið sjálf bærni að leiðarljósi. Mannkynið geti breytt hegðun sinni í krafti þekkingar og skilnings. Mikilvægast er að beina umgengni okkar um náttúruna frá ríkjandi viðleitni til að umbreyta náttúrunni að því að umbreyta sambandi okkar við hana. Í þessu felst grunnurinn að því að bjarga náttúrunni og þar með mannkyni frá bráðum háska.
Ljóst er að við lifum í samfélagi þar sem gjarnan er litið á manninn sem drottnara yfir náttúrunni og í raun aðskilinn frá henni. Þannig er okkur tamt að upphefja vitsmuni okkar og beita þeim til að laga umhverfið að okkar þörfum og hagsmunum án mikils tillits til annarra lífvera og vistkerfa. Í aðfaraorðum Inger Anderson, forstjóra UsSþ, í framangreindri skýrslu leggur hún áherslu á þá viðvörun sem Covid19 faraldurinn er í þessu sambandi, en hann má beint og óbeint rekja til óvarkárni í umgengni við vistkerfi jarðar. Undirrót skaðans sem við höfum valdið á líffræðilegri fjölbreytni og þar með vistkerfum jarðar, er fólgin í hinni sjálfsköpuðu sérstöðu mannsins. En hvernig leggjum við grunninn að bráðnauðsynlegu og umbreyttu viðhorfi til náttúrunnar og þar með bættum lífskjörum?
Lykillinn að svarinu liggur í orðum aðalritara Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, í áðurnefndri skýrslu, þar sem hann segir að með því að umbreyta tengslum okkar við náttúruna munum við gera okkur grein fyrir hinu sanna gildi hennar. Hér er afstaða tekin með náttúrunni í heild og gildi hennar lögð til grundvallar breyttu gildismati sem gengur gegn ríkjandi gildismati sem þjónar hagsmunum mannsins einvörðungu og í raun og sann hefur snúist gegn honum. Þetta felur í sér að víkka viðtekna siðfræði þannig að hún taki til siðfræði náttúrunnar allrar: Öll mannleg breytni verður að taka mið af náttúrunni í heild. Þörf þessa verður augljós þegar við hugum að eðli og gerð vistkerfa jarðar sem við erum órjúfanlegur hluti af. Vistkerfin endurspegla nefnilega þau gildi náttúrunnar sem hér um ræðir. Í krafti fjölbreytni leggja vistkerfin og tengsl milli ólíkra vistkerfa allt það til sem gerir lífverum kleift að lifa og dafna. Þar má nefna eðlis- og efnaþætti eins og birtu, hita og vatn, sem og fæðu og búsvæði. Þessi verðmæti eru lífsnauðsynleg mannlegri tilveru ekki síður en öðrum lífverum, en við höfum í æ ríkari mæli misst sjónar á þeim með þeim alvarlegu afleiðingum sem nú blasa við.
Hinn siðferðilegi þáttur snýst þá einkum um að lífverur, þar með talinn maðurinn, finni taktinn í þeim f lóknu tengslum og samskiptum sem eiga sér stað í heilbrigðum vistkerfum. Þessi taktur felst meðal annars í því að við hugum náið að upplifun okkar í náttúrunni og skynjum í víðri merkingu þau undirstöðuverðmæti sem þar er að finna. Með öðrum orðum að við gaumgæfum betur en við höfum gert til þessa þau gildi sem náttúran felur í sér. Hér hafa heimspekingar og fræðimenn, eins og Aldo Leopold, Páll Skúlason og fleiri, bent á mikilvægi skapandi tengsla og auðmýktar í lífsmáta og afstöðu okkar til umhverfisins. Full ástæða er til að draga athygli lesenda að kenningum af þessu tagi.
Virðing, hófsemi og skilningur á eðli og gerð vistkerfa eru frumforsendur þess að skipuleggja skynsamlega umgengni okkar í náttúrunni til framtíðar og í baráttunni við aðsteðjandi ógnir. Þetta varðar afstöðu hvers okkar, en stefna stjórnvalda, menntastofnana og fyrirtækja er líka algjört grundvallaratriði. Við þurfum að öðlast betri þekkingu og yfirsýn yfir náttúruna, og stefnumótun um umgengni okkar í henni þarf að vera skynsamleg, skýr og heildræn. Þetta á ekki hvað síst við um náttúru Íslands, sem er tiltölulega lítt snortin og um margt mjög sérstök, meðal annars hvað varðar uppsprettu líffræðilegrar fjölbreytni og eðli vistkerfa. Lífríkið hérlendis endurspeglar að miklu leyti hnattstöðu og landfræðilega einangrun eyjunnar ásamt ungum aldri og mikilli eldvirkni. Við erum þátttakendur í stórkostlegu gangverki og framvindu, því náttúran er kvik og síbreytileg eins og landrek og kvikuhreyfingar undanfarið á Reykjanesskaga sýna glögglega.
Það er vissulega umhverfisvakning í íslensku samfélagi og viljinn til að breyta til hins betra er mikill. Hér hafa yngri kynslóðir gengið fram af krafti með lofsverðum hætti og góð dæmi um það eru herferð Ungra umhverfissinna í loftslagsmálum og vinna Landssambands ungmennafélaga að viðbrögðum við hruni líffræðilegrar fjölbreytni. Einnig eru mörg verkefni í gangi bæði á vegum annarra félagasamtaka, hins opinbera og einstaklinga, í því skyni að bregðast við umhverfisvánni. Mikilvægt er að taka þátt og styðja góð verkefni. Allar aðgerðir til björgunar, meðal annars þær sem tengjast efnahagsog framleiðslukerfum okkar, hvíla á því að náttúruauðlindir séu nýttar með sjálf bærum hætti.
Við stöndum frammi fyrir afar stóru viðfangsefni sem hvorki þolir bið né fálmkenndar aðgerðir eða töfralausnir. Til að leggja grunn að betri framtíð er eina leiðin að breyta sambandi okkar við náttúruna, taka málstað hennar og leggja okkur fram um að skilja hana, virða og sýna henni auðmýkt – og einfaldlega að taka þeim áskorunum sem skýrsla Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna býður okkur að gera: Semja frið við náttúruna!