Hönnuður merkisins er Fífa Jónsdóttir, sérfræðingur í grafískri miðlun. Hún er mikill náttúruunnandi og vinnur hörðum höndum að því að sýna hvað íslensk náttúra er mögnuð en á sama tíma fíngerð og viðkvæm með því að tvinna saman listir og vísindi.
Merkið er unnið út frá blómi dýragrass sem mætti túlka sem táknmynd íslenskrar náttúru, hennar sérstöðu og mikilvægi. Blómið er smátt og fíngert en ef litið er aðeins nær þá er það áberandi blátt í sínu mógræna umhverfi.
Krónublöðum blómsins er skipt í 23 hluta og sú tala vísar í markmið Kunming Montreal Global Biodiversity Framework um líffræðilega fjölbreytni. Skipting krónublaðanna táknar einnig fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og milli tegundasamfélaga og umverfisins. Líffræðilega fjölbreytni þarf að varðveita og ein leið til þess að koma þeim skilaboðum á framfæri er að útskýra þetta flókna hugtak á einfaldan hátt í merkinu sjálfu.

