Pistill um Líf í þættinum Uppástand 28. október 2024 á Rás 1. Höfundur: Skúli Skúlason
Góðir hlustendur. Ég þakka fyrir það tækifæri að ræða við ykkur um líf. Ég er menntaður líffræðingur, en það þýðir ekki að ég viti hvað líf sé; líffræðin er ekki með neitt einhlýtt svar við því. En hér segi ég frá mínum pælingum.
Byrjum á því að skoða hugtakið lífvera. Flestir líffræðingar eru sammála um að frumur séu hvað mikilvægustu einingar lífsins. Frumur geta starfað sem sjálfstæðar lífverur, svo sem þörungar og bakteríur, en þær mynda líka flóknari samsettar, eða fjölfruma lífverur eins og okkur sjálf. Auk fruma sem mynda sérhæfð líffæri vitum við núna að einfruma lífverur eins og bakteríur taka virkan þátt í að fjölfruma lífverur geti starfað eðlilega. Við getum haldið áfram og velt fyrir okkur samsetningu lífveranna, sérhæfðum frumum, nauðsynlegum örverum, hvaða efni og sameindir koma við sögu og svo framvegis. Það gerir okkur margs vísari, en svarar þó ekki spurningunni um hvað sé líf. Til að nálgast hugtakið líf skulum við skoða hvað er að vera lifandi og leiðum svo að lokum hugann að hver tilgangur lífsins kann að vera.
Grundvallaratriði er að lífið býr sig sjálft til. Lífið er með einhverjum hætti sjálfskapandi. Stundum tökum við í stýrið með lífinu, skynjum, hugsum á skapandi hátt og tökum ákvarðanir frá degi til dags. En sambærileg sköpun – þó í öðru formi sé – á sér stanslaust stað víðar, þ.e. alls staðar þar sem er líf. Líkaminn vex og þroskast, hjartað slær, blóðið rennur um æðarnar, sár gróa, grasið grær, marfló skiptir um ham, hnignuð vistkerfi rétta úr kútnum, tegundir þróast og haninn galar. Allt eru þetta merki um hvernig lífið nærir sig sjálft, er sjálfskapandi. Sjálfsköpun fjölfruma lífveru hefst við fyrstu frumuskipti fóstursins. Við erum engan veginn meðvituð um hvernig þessir flóknu ferlar eiga sér stað, jafnt innan líkama okkar sem utan, en við treystum að lífið sé til staðar og sinni því hlutverki að gera okkur og öðrum lífverum kleift að vera til og lifa… þar til yfir lýkur.
Skapandi kraftur lífsins er ekki bara í einstökum lífverum heldur eru lífverur tengdar hver annarri og einnig umhverfinu sem þær eru í. Þannig tölum við um margs konar vistkerfi, t.d. stöðuvatna, hafsins, borga eða vistkerfi jarðar. Þessi flókni lifandi tengslaheimur einkennist af samvinnu um að viðhalda lífinu og sköpunarkrafti þess. Vistkerfi, stór sem smá, eru forsenda þess að líf geti þrifist og dafnað og fjölbreytni lífvera og vistkerfa jarðar er vissulega stórkostlegt undur.
En hvað knýr áfram þessa skapandi starfsemi lifandi vera og þeirra samfélaga og vistkerfa sem þær mynda? Hvað liggur að baki því að lífið dafni og viðhaldist? Staðreyndin að lifandi verur eru í órofa sambandi við og skynja – í víðasta skilningi orðsins – umhverfi sitt gæti hjálpað okkur að svara þessari spurningu. Í raun skilgreina lífverur og samfélög lífvera umhverfi sitt, vinna síðan úr þeim upplýsingum sem þær afla með þessum tengslum, og bregðast svo við með ýmsum hætti. Þetta er leið þeirra til að geta lifað við og aðlagast aðstæðum sem oftast eru breytilegar og algjörlega ófyrirsjáanlegar. Ófyrirsjáanlegar breytingar eru því ákveðin forsenda framvindu lífsins, þær kalla fram skapandi viðbrögð og eitthvað nýtt verður til. Lífið sjálft er þannig ófyrirsjáanlegt. Með þessum hætti spinnur það sinn tilvistarvef, sem birtist okkur í fjölbreytni lífsins í víðum skilningi – jafnt í líkama okkar, vistkerfum og í lífríkinu öllu.
Við getum orðað þetta öðruvísi og sagt að lífið sem skapandi kraftur einkennist af væntingum um að skynjun og greining á aðstæðum auki skilning og hjálpi að takast sem réttast og best á við það sem að höndum ber. Hér koma við sögu hugtök eins og athygli, þolinmæði, nákvæmni, vandvirkni – en líka áhætta. Þessi orð virka kannski mannmiðuð en mér finnst þó að þau geti vel átt við um hið skapandi líf almennt. Ferðalag lífsins gengur vissulega misvel, því oftar en ekki er vegurinn hlykkjóttur og valkostir mismargir. Við sjáum líka að lífsviljinn er ótrúlega mikill. Lífvera sem virðist í vonlausum aðstæðum reynir oftast að finna leið til að lifa og fóstra þau gildi sem búa með henni, hversu mikil sem þjáningin er. Í mörgum tilfellum styðja lífverur einnig hver aðra í lífsbaráttunni. Árangur, velgengni, hamingja og sátt við tilveruna geta ekki verið markmið í sjálfu sér – en slík verðmæti koma einungis fram ef vel tekst til á vegi lífsins.
Lífverurnar koma og fara og taka þátt í ævintýri lífsins í undraheimi náttúrunnar. Allar hafa þær sitt fram að færa, gefa og þiggja, jafnvel frekjast, í framvindu hins eilífa lífs. Getum við kannski sagt að það sé tilgangur lífsins? Kannski mætti vænta meira af hinum svokallaða viti borna manni hvað framlag hans varðar í þessum heimi.