Fjórða tölublað Þoku er komið út og þemað í apríl eru fuglar. Þorgerður María Þorbjarnardóttir, ritstjóri Þoku og formaður Landverndar skrifar forsíðugreinina.
Fuglar eru ávitar á vistkerfi
Ég hafði aldrei gefið fuglum neinn sérstakan gaum þótt ég hafi lært að þekkja helstu tegundirnar í leik og starfi. Þegar ég var á leiðinni í meistaranám í Bretlandi sendi einn af samnemendum mínum okkur öllum skilaboð og spurði hvort að eitthvert okkar hefði gaman af “birding”. Ég gerði ráð fyrir að um væri að ræða einhverskonar slangur fyrir golf, en síðan kom í ljós að hann átti við fuglaskoðun sem er stunduð eins og íþrótt þar í landi.
Ég endaði á að vinna sjálfboðaverkefni fyrir BTO eða British Trust for Ornithology. Nafnið mætti þýða sem „Breski Sjóður um Fuglafræði“. Það eru samtök þar sem fjöldi fólks vinnur við að kenna almenningi að þekkja og telja fugla og enn fleiri sem vinna við gagnaúrvinnslu. Almenningur safnar gögnunum með því að telja fugla og vísindamenn BTO vinna úr gögnunum og gefa út skýrslur um fuglastofna, sem því miður eiga það flestir sameiginlegt að vera að fækka ískyggilega.
En hvers vegna að telja fugla?
Það er auðvelt að telja fugla, oftast sérðu ekki nema tvo eða þrjá af sömu tegund í einu. Eða kannski tíu, eða tuttugu, en það er miklu auðveldara að telja tuttugu fugla heldur en að kafa ofan í jarðveginn og telja ormana, hafa uppi á öllum sniglunum í Öskjuhlíðinni eða telja jurtategundir á fermeter í Heiðmörk. Fuglarnir eru ávitar (e. indicator) á vistkerfið sem heild. Þeir gefa ekki fullkomna mynd af ástandi vistkerfa en þeir gefa vísbendingu. Og það er um að gera að virkja áhuga almennings á þeim svo öll geti lagt sitt af mörkunum með því að þekkja og telja fugla. Svo eru þeir líka bara svo sætir.