Frétt af vef Reykjavíkurborgar 9. október 2025
Reykjavíkurborg hefur skuldbundið sig til að taka þátt í alþjóðlegu verkefni sem miðar að því að efla líffræðilega fjölbreytni í borgum, endurheimta vistkerfi og treysta græna innviði. Líf Magneudóttir, formaður borgarráðs, undirritaði Náttúruborgarsamning Berlínar (Berlin Urban Nature Pact), fyrir hönd borgarinnar í Ráðhúsinu í Berlín, höfuðborg Þýskalands, í gær.
Áður hafði þátttaka Reykjavíkur verið samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði, borgarráði og borgarstjórn.
Græn svæði, náttúrufræðsla og matjurtarækt
Borgir sem hafa undirritað samninginn, skuldbinda sig til að innleiða að lágmarki 15 af 28 mælanlegum aðgerðum fyrir árið 2030. Aðgerðirnar geta sem dæmi falist í aukinni náttúrufræðslu, fjölgun trjáa og gróðurs í borgarlandinu, matjurtarækt fyrir íbúa, innleiðingu blágrænna lausna og aðgengi og eflingu grænna svæða.
„Eitt af okkar brýnustu verkefnum í samtímanum er varðveisla og endurheimt náttúru og búsvæða lífvera í ört stækkandi borg. Við Reykvíkingar erum lánsöm að hafa greitt aðgengi að náttúrulegum svæðum og grænum íverustöðum en við megum ekki taka þeim sem gefnum. Við verðum að hlúa að þeim og átta okkur á að þessir staðir eru einnig mikilvægir og lífsnauðsynlegir fyrir aðrar lífverur, rétt eins og okkur. Við eigum að leggja okkur fram við að efla og fóstra borgarnáttúruna okkar og vera meðal fremstu borga þegar það kemur að líffræðilegri fjölbreytni,“ segir Líf. „Með undirrituninni erum við að skuldbinda okkur í að gera okkar besta í þessu brýna verkefni og vera í kærkomnu samstarfi og samtali við líkt þenkjandi borgir út um allan heim þegar það kemur að vernd líffræðilegrar fjölbreytni,“ segir hún.
Markmið og leiðirnar að þeim
Reykjavíkurborg hefur þegar markað sér stefnu í líffræðilegri fjölbreytni en hún er frá árinu 2016. Unnin var aðgerðaráætlun til tíu ára í kjölfar þess að stefnan var samþykkt og er því komið að því að endurskoða hana. Tímasetningin á Náttúruborgarsamningi Berlínar er því heppileg og gefur Reykjavíkurborg góð tæki og tól í þá vinnu en borgirnar sem taka þátt í samkomulaginu skuldbinda sig til að gera aðgerðaráætlun í málaflokknum innan árs frá undirritun.
Þátttökuborgirnar skila árlega framvinduskýrslum og læra hverjar af annarri í gegnum samstarfsnet samningsins. Samkomulagið fjallar því ekki aðeins um markmið, sem stefnt er að ná fyrir 2030, heldur líka leiðirnar að þeim.
Framhald af Montréal-yfirlýsingunni
Auk þess hefur Reykjavíkurborg skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um eflingu líffræðilegrar fjölbreytni með undirritun borgarstjóra á Montréal-yfirlýsingunni (Montréal Pledge) árið 2022. Frá undirritun Montréal-yfirlýsingarinnar hefur Berlínarborg leitt vinnu um hvernig megi innleiða markmið yfirlýsingarinnar, dýpka hana og formfesta. Niðurstaða þeirrar vinnu var að koma á fót þessum nýja samningi, Náttúruborgarsamningi Berlínar, sem Reykjavíkurborg er nú formlega aðili að.