Grein í Náttúrufræðingnum, 12/2022, eftir Ragnhildi Guðmundsdóttur
Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni þarf varla að tíunda fyrir lesendum Náttúrufræðingsins. Líffræðileg fjölbreytni er grundvallarundirstaða tilveru mannkyns og allra annarra lífvera. Samsetning lífveruhópa, samskipti innan þeirra og milli og gagnvirk tengsl við lífvana umhverfi hafa skapað þær aðstæður á þessari jörð sem gera hana einstaka og lífvænlega. Á þetta samspil reiðir mannkynið sig til vaxtar og viðhalds, og fyrir framtíð okkar á jörðinni skiptir öllu máli að við göngum ekki um of á auðlindirnar og að vistkerfin séu sjálfbær. Líffræðileg fjölbreytni er forsenda eiginleika vistkerfanna og liggur að baki þeirrar vistkerfisþjónustu sem við reiðum okkur á í öllu okkar daglega lífi, en hún nær yfir öll náttúrugæði sem mannskepnan nýtir sér, líkt og aðrar lífverur. Þetta er framboð fæðu, hreins vatns og lofts, binding koltvísýrings, eðlilegar hringrásir næringarefna, temprun hita, uppspretta lyfja, náttúruupplifun sem nýta má til andlegrar ræktar, og svona mætti lengi telja. Við, og lífríki jarðar í heild, eigum því allt undir að þeir ferlar sem liggja til grundvallar eðlilegri starfsemi vistkerfa fái að eiga sér stað án skaðlegra inngripa. Seigla vistkerfanna er háð því að fjölbreytni sé til staðar. Þannig geta þau brugðist við breytingum. Án fjölbreytni eru engir valkostir.
Nú stöndum við frammi fyrir því að líffræðileg fjölbreytni er að tapast á áður óþekktum hraða og það af mannavöldum. Umhverfið er að breytast fyrir tilstilli okkar daglegu athafna, sem eru svo langt frá því að vera sjálfbærar að öll jörðin líður fyrir. Við göngum á og höfum áhrif á búsvæði allra lífvera og daglega berast fréttir af því að búsvæði séu eyðilögð, plastrusl finnist í dýpstu sjávarbotnum sem og á fjallatindum, stofnar hverfi og tegundir deyi út. Fingraför athafna okkar finnast alls staðar á jörðinni. Tegundum í mjög mikilvægum og tegundamörgum dýrahópum meðal skordýra, sem er langstærsti dýrahópurinn, fækkar umtalsvert og alvarlegustu dæmin raungerast við hrun heilla vistkerfa með tilheyrandi afleiðingum. Ástæðurnar eru þekktar. Helstu ógnir við líffræðilega fjölbreytni eru búsvæðaeyðing, framandi ágengar tegundir, ofnýting, mengun og loftslagsbreytingar. Allt eru þetta þættir sem stuðla að hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og útdauða staðbundinna aðlagaðra stofna og tegunda. Þetta þýðir að vistkerfin geta ekki starfað eins og þau gerðu áður, með tilheyrandi skaða fyrir allt líf. Sterkar vísbendingar eru um að sjötta útdauðahrinan sé hafin. Við slíkar fréttir ætti hverju mannsbarni að renna kalt vatn milli skinns og hörunds. Tap líffræðilegrar fjölbreytni er að raungerast.
Þótt hérlendis sé enn að finna ýmis tiltölulega ósnortin vistkerfi er Ísland engin undantekning frá umræddri þróun. Búsvæðaeyðing, mengun, ofnýting og ágengar framandi tegundir eru raunverulegar ógnir við lífríki landsins að ótalinni loftslagsvánni sem ein og sér er talin hafa neikvæð áhrif á mikilvæga lífverustofna á og við landið. Orðræðan um fjölbreytni lífs á Íslandi hefur þó á köflum verið dapurleg og er á þá leið að hér sé einungis fábreytni fyrir að fara. Hér eru vissulega ekki margar tegundir á alþjóðakvarða en það skýrist af legu landsins sem úthafseyju lengst norður í höfum og þeim stutta tíma sem liðinn er frá síðasta jökulskeiði þegar landið var hulið jöklum. Í þessu felst þó mikilvæg sérstaða okkar. Þessar aðstæður hafa saman mótað einstakar aðstæður fyrir lífverur að nema land og þróast. Hérlendis er jarðbreytileiki mikill, og það hefur skilað sér í því að þær fáu tegundir sem hafa numið hér land hafa haft einstakar aðstæður til að aðlagast ólíkum vistum án mikillar samkeppni. Þetta lýsir sér oft í mikilli fjölbreytni innan tegunda.
Hugtakið líffræðileg fjölbreytni var skilgreint í Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem undirritaður var í Rio de Janeiro 1992. Þar segir: „Líffræðileg fjölbreytni merkir breytileiki meðal lífvera í margbreytilegu umhverfi, þar með töldum vistkerfum á landi, í sjó og vötnum, og þau vistfræðilegukerfisemþæreruhlutiaf; þetta nær til fjölbreytni innan tegunda, milli tegunda og meðal vistkerfa.“ Skilgreiningin gefur tilefni til að horfa á mismunandi skipulagsstig líffræðilegrar fjölbreytni. Það er jákvætt, því hana þarf að meta aðstöðubundið og taka tillit til sérstöðu mismunandi svæða jarðar. Á Íslandi er, eins og áður segir, ríkur fjölbreytileiki innan tegunda og við búum einnig að mörgum sérstökum vistkerfum sem eru sjaldgæf á heimsvísu. Að telja eingöngu tegundir er hreinlega ekki nothæfur mælikvarði á verðmæti líffræðilegar fjölbreytni á Íslandi. Okkar verkefni – og forgangsmál – er að meta og varðveita þá líffræðilegu fjölbreytni sem hefur mótast hér fyrir tilstilli einstakra aðstæðna.
Við þurfum öll að þekkja hugtakið líffræðileg fjölbreytni, og skilja hvað felst í því og hvað er í húfi. Náttúruminjasafn Íslands hefur sett kynningu hugtaksins á oddinn í sínu starfi og nýta safnkennarar sýningu safnsins Vatnið í náttúru Íslands til fræðslu til skólahópa. Þess má geta að skólaárið 2022–2023 hefur Náttúruminjasafnið tileinkað líffræðilegri fjölbreytni. Einn liður í aukinni fræðslu er jafnframt þróunarverkefnið List og lífbreytileiki sem fékk styrk frá Barnamenningarsjóði síðastliðið vor og var hleypt af stokkunum nú í haust. Verkefnið felst í því að búa til vinnustofur sem samtvinna vísindafræðslu og listræna úrvinnslu á öllum skólastigum grunnskóla. Til að vinna verkið hefur Náttúruminjasafnið fengið til liðs við sig kennara við átta skóla víðsvegar um landið, sem og listafólk, sem falin verður leiðsögn í vinnustofunum í samstarfi við sérfræðinga safnsins. Ætla má að afraksturinn verði æði fjölbreyttur, og er þess vænst að þetta starf hjálpi okkur að búa til tæki til að auka skilning á merkingu hugtaksins og mikilvægi þess. Afrakstur verkefnisins verður kynntur á Barnamenningarhátíð í sérstöku sýningarrými safnsins, Dropanum, á annarri hæð Perlunnar í apríl 2023. Einnig verður haldið málþing til að kynna afrakstur verkefnisins og draga lærdóma af ferlinu. Þá má nefna að fyrirhuguð ný grunnsýning Náttúruminjasafnsins kemur til með að fjalla um líffræðilega fjölbreytni í hafinu, og verður sú sýning í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnanesi, í Náttúruhúsi í Nesi.
En betur má ef duga skal. Við þurfum að taka höndum saman og auka umfjöllun um hugtakið líffræðileg fjölbreytni og gera öllum mikilvægi þess ljóst. Markmiðin eru skýr. Mannkynið þarf að ná að lifa sjálfbæru lífi í sátt við náttúruna. Nú þegar hefur verið lagður grunnur að samstarfsvettvangi um líffræðilega fjölbreytni með myndun tengslanetsins BIODICE. Þar koma saman sérfræðingar, einstaklingar, samtök og stofnanir sem vilja stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi hugtaksins. Fyrir þau sem vilja kynna sér BIODICE nánar er hægt að fara inn á vefinn biodice.is, lesa stefnuyfirlýsingu samstarfsvettvangsins, sem og skrá sig í tengslanetið og á póstlistann. Fréttabréf eru send út reglulega um stöðu mála. Á næsta ári er fyrirhugað að meðlimir BIODICE skipuleggi hátíð líffræðilegrar fjölbreytni. Skipulagið er enn í vinnslu og eru allar ábendingar vel þegnar. Þau sem vilja leggja sitt lóð á vogaskálina er bent á að hafa samband við undirritaða.
Dr. Ragnhildur Guðmundsdóttir
líffræðingur og safnkennari við Náttúruminjasafn Íslands