Leiðangurinn
Sumarið 2024 stóð Alfred Wegener stofnuninn fyrir leiðangri til norðurskautsins, upp að 80. breiddargráðu, á hinu sögufræga rannsóknarskipi og ísbrjóti RV Polarstern. Skipið var smíðað árið 1982 og getur brotist í gegnum 1,5m þykkan ís á 10 km/klst. Starfsmaður Hafrannsóknastofnunar, Áki Jarl Láruson stofnerfðafræðingur, var um borð til að vinna að verkefninu “Áhrif loftslagsbreytinga á sjávarvistkerfi norðurskautsins” (e. Impact of climate change on Arctic marine ecosystems). Sýni voru tekin á langtíma vöktunarstöðum, en í þetta skipti freistaðist leiðangursfólk til þess að einangra DNA úr sjávarhryggleysingjum um borð til að skoða tengingar breytilegs umhverfis við arfgengni mismunandi erfðavísa. Með þessu er vonast til að einkenna mögulega lífvísategundir (e.bioindicator species) á norðurslóðum.
Amathillopsis marflóin
Ein af þeim tegundum sem fundust í þessum leiðangri var marflóin Amathillopsis spinigera. Út er komin vísindagrein um hana og ágrip á íslensku er að finna á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar. Helstu niðurstöðurnar eru að tegundin virðist vera alveg pólhverf, þ.e. hún finnst umhverfis allt norðurheimskautið. Hún getur búið bæði á miklu grynnri slóðum (á um 10 metrum) sem og á talsvert meiri dýpt en áður hafði hugsast (á rúmu þriggja kílómetra dýpi). Erfðarannsóknir á sýnum sem Áki Jarl einangraði um borð á ísbrjótnum Polarstern og rýndi í eftir að þau voru raðgreind við Senckenberg stofnunina í Þýskalandi benda til þess að talsverð tenging er milli þessara marflóa hringinn í kringum norðurskautið, og nær engin erfðafræðilegur aðskilnaður (í hvatberanum) á milli einstaklinga teknir í þessum leiðangri um Framsund (e. Fram Strait, sundið á milli Svalbarða og Grænlands) og einstaklinga sem teknir voru úr Tjúktahafi (e. Chukchi Sea, hafsvæðið á milli Síberíu og Alaska).

Ný uppgötvuð metansytra
Önnur grein sem er í vinnslu skilgreinir ný uppgötvaða metansytru (e. methane seep) á norðvestur hluta Vestnesahrygg (austan við Svalbarða) og voru lífsýni tekin á svæðinu í fyrsta sinn frá því hún fannst með dýptarmælingum árið 2020. Metansytra er svæði þar sem kolvetnis gasuppstreymi á sér stað líkt og í neðansjávarhver, en er talsvert kaldari en hver – þó að hitastig við metansytru geta verið yfir 60°C. Í greininni er henni formlega gefið nafnið Hænir, eftir ásnum úr norrænni goðafræði sem gaf fyrstu manneskjunni “óð” eða lífsanda. Sýni tekin í þessum leiðangri sýna greinilegan vistfræðilegan aðskilnað líffélaga innan og utan marka metansytrunar.

Vestnesahryggur. Mynd úr þessari grein: Cooke F, Plaza-Faverola A, Bünz S, Sultan N, Ramachandran H, Bedle H, Patton H, Singhroha S and Knies J (2023), Sedimentary deformation relating to episodic seepage in the last 1.2 million years: a multi-scale seismic study from the Vestnesa Ridge, eastern Fram Strait. Front. Earth Sci. 11:1188737.
Fleiri myndir úr leiðangrinum









