Vinna við þetta verkefni hófst í mars 2024 þegar matvælaráðuneytið gerði samning við Biodice um að gera stöðumat á innleiðingu markmiða GBF í málaflokkum ráðuneytisins. Stöðumatið sýnir hvernig lög, reglugerðir, stefnur og verkefni á vegum ráðuneytisins stuðla að því að markmiðunum verði náð og skuldbindingar Íslands til samnings Sameinuðu þjóðanna uppfylltar. Gloppur og tækifæri er hægt að greina út frá stöðumati líkt og þessu sem nýtist vel við gerð heildstæðrar stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Aðferðafræðin við stöðumatið var þróuð af starfsfólki Biodice.
Farið var yfir 23 undirmarkmið GBF samkomulagsins og mat lagt á það hve vel þau eiga við málaflokka matvælaráðuneytisins (landgræðsla og skógrækt, landbúnaður, lagareldi og sjávarútvegur) sem og hvar ábyrgðin liggi við innleiðingu þeirra. Lagt var mat á hve vel lög, reglugerðir og stefnur ráðuneytisins stuðla að því að markmiðin verði uppfyllt og einkunnir gefnar út frá matskvörðum Biodice sem þróaðir voru út frá lýsingu CBD á undirmarkmiðum GBF. Verkefni undirstofnana ráðuneytisins, Lands og skógar og Hafrannsóknastofnunar, voru metin út frá því hvaða markmiðum þau snúa að. Að auki voru þeir hagaðilar sem tengjast málefnum líffræðilegrar fjölbreytni listaðir upp.
Í byrjun árs 2025 urðu breytingar á ráðuneytum með nýrri ríkisstjórn. Matvælaráðuneytið fékk þá nýtt nafn, atvinnuvegaráðuneyti, og við það bættust málefni ferðaþjónustu, neytenda, viðskipta og iðnaðar. Þá færðust málefni landgræðslu og skógræktar til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Vegna þessara breytinga var ákveðið að bæta við stöðumati fyrir ferðamál og neytendamál en halda inni málefnum landgræðslu og skógræktar. Verkefninu var skilað í júní 2025.
Höfundar: Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, Álfur Birkir Bjarnason og Rannveig Magnúsdóttir
Verkefnahópur: Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, Álfur Birkir Bjarnason, Rannveig Magnúsdóttir, Skúli Skúlason, Ole Sandberg og Sveinn Kári Valdimarsson.
Forsíðumynd: Helga Aradóttir
Grafík og töflur: Fífa Jónsdóttir